Tækifærin í TEPA-samningi Indlands og EFTA

Eftir R. Ravindra, sendiherra Indlands á Íslandi

Indverski viðskipta- og iðnaðarráðherrann, Piyush Goyal, tilkynnti þann 19. júlí að viðskipta- og efnahagssamstarfssamningur Indlands og EFTA (TEPA) muni taka gildi frá og með 1. október.

Eins og flestum í íslensku viðskiptalífi er þegar kunnugt, undirrituðu Indland og aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu – Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss – viðskipta- og efnahagssamstarfssamning (TEPA) þann 10. mars 2024. Indland og aðildarríki EFTA héldu 21 umferð samningaviðræðna frá og með 2008 til að ná samkomulagi.

Öll fimm löndin hafa lagt fram fullgildingarskjöl sín vegna samningsins til tilnefnds vörsluaðila – Noregs – sem sýnir fram á sterka skuldbindingu við samninginn. Eins og áður segir, tekur samningurinn gildi 1. október 2025.

Fríverslunarsvæði, sem samanstendur af Indlandi og EFTA-ríkjunum, verður til í samræmi við ákvæði samningsins frá gildistökudegi hans.

Hvert er markmið TEPA – eða fríverslunarsamningsins eins og hann er almennt kallaður?

Markmið TEPA-samningsins er að auka frjálsræði í viðskiptum með bæði vörur og þjónustu milli Indlands og EFTA í samræmi við GATT-samninginn frá 1994 og GATS, auka fjárfestingartækifæri, efla samkeppni, tryggja skilvirka vernd hugverkaréttinda, efla sjálfbæra þróun og stuðla að vexti og útbreiðslu alþjóðaviðskipta.

Samkvæmt TEPA-samningnum hefur EFTA skuldbundið sig til að stuðla að beinni erlendri fjárfestingu upp á 100 milljarða Bandaríkjadala á Indlandi á næstu 15 árum og auðvelda sköpun milljón beinna starfa á Indlandi með slíkum fjárfestingum.

Þetta er fyrsti slíki fríverslunarsamningurinn sem Indland hefur undirritað þar sem skuldbinding um erlendar beinar fjárfestingar hefur verið innbyggð. Geirar sem líklega munu sjá mest áhrif af samningnum eru sjávarafurðir og sjóflutningar, orka, heilbrigðisþjónusta, fjármálaþjónusta, menntun og hljóð- og myndþjónusta, lyfjafyrirtæki, véla- og rafmagnstækni, endurnýjanleg orka og matvæli og matvælavinnsla.

Indland hefur boðið EFTA viðskiptaívilnanir í 105 þjónustugreinum og tryggt sér skuldbindingar í 128 þjónustugreinum frá Sviss, 114 frá Noregi, 107 frá Liechtenstein og 110 frá Íslandi.

Á meðal þeirra 105 undirgeira þar sem Indland býður viðskiptaívilnanir eru bókhald, upplýsingatækni, heilbrigðisþjónusta o.s.frv. Gert er ráð fyrir að ívilnanirnar muni auka þjónustuviðskipti milli Indlands og EFTA-ríkja.

Lækkanir á tollum á vörum sem fluttar eru inn frá EFTA-ríkjunum eiga að hjálpa til við að lækka verð á vörum eins og osti, súkkulaði, víni og öðrum unnum matvælum, ásamt úrum, klukkum og fleiru.

Ívilnanir og stefnumótandi stuðningur mun hjálpa EFTA-ríkjunum að skipuleggja viðskipti sín á Indlandi með trausti og vissu. Samningurinn mun örva þjónustuútflutning Indlands í geirum þar sem það er sterkast, svo sem þjónustu á sviði upplýsingatækni, viðskipta, starfsmannamála, menningarmála, íþrótta, afþreyingar, menntunar og margmiðlunar.

Mikilvægi TEPA/fríverslunarsamningsins fyrir viðskipti Indlands og Íslands

Samningurinn nær yfir lykilatriði – þar á meðal aðgang að markaði fyrir vörur og þjónustu – sem munu greiða fyrir viðskiptum, fjárfestingum og efnahagslegu samstarfi milli Íslands og Indlands.

Innleiðing samningsins mun leiða til afnáms tolla á ýmsum vörum, þar á meðal ýmsum sjávarafurðum og skyldum vörum, lambakjöti, sjaldgæfum jarðmálmum og sumum vörum sem tengjast áliðnaði. Samningurinn leyfir einnig frjálsa för þjónustuveitenda. Bæði Indland og Ísland munu einnig smám saman slaka á tollum eins og fram kemur í tímaáætlun samningsins.

Indland og Ísland geta einnig notið góðs af samstarfi í nýsköpun og tækni. Bæði löndin búa yfir einstökum vistkerfum fyrir slíka nýsköpunarstarfsemi – Indland með stóran vísinda- og tæknigrunn; net 23 tæknistofnana og rannsóknarmiðstöðvar í öllum geirum.

Sumar nýjungar frá Íslandi hafa vakið athygli um allan heim. Ákvæði TEPA skapa skilyrði til að hraða samstarfi ríkjanna í nýsköpun og tækni.

Samningurinn kveður einnig á um að auðvelda samstarf milli öndvegismiðstöðva (centers of excellence), ríkisstofnana og sérfræðistofnana á sviðum eins og jarðvísindum, fjarlæknisfræði, raunvísindum og tækni, heilbrigðisþjónustu, líftækni, stafrænni tækni, endurnýjanlegri orku, hreinni tækni og sjálfbærri málmframleiðslu.

Ísland hefur náð miklum árangri í endurnýjanlegri og hreinni tækni, líftækni og heilbrigðisþjónustu. Nýjungar sem þróaðar eru á þessum sviðum geta stuðlað að auknum tvíhliða viðskiptum. Indland með sinn gríðarstóra markað og unga vinnuafl getur verið rétta vistkerfið fyrir íslenskar nýjungar til að stækka og lækka kostnað.

Indland hefur komið á fót sérstöku EFTA-þjónustuborði í Nýju Delí. Miðstöðin var opnuð formlega 10. febrúar 2025. EFTA-þjónustuborðið er einstakur vettvangur til að efla verslun, fjárfestingar og viðskiptatengsl milli Indlands og aðildarríkja EFTA. Netfang fyrir fjárfestingaaðstoð og aðstoð við að einfalda viðskipti er eftadesk@investindia.org.in

Sendiráð Indlands í Reykjavík hvetur einnig áhugasöm fyrirtæki til að hafa samband við viðskiptadeild sendiráðsins á com.reykjavik@mea.gov.in til að fá upplýsingar um ákvæði samnings Indlands og EFTA-ríkjanna varðandi einstaka geira viðskiptalífsins.

Scroll to Top