Aukin tækifæri í sjávarútvegi á grundvelli TEPA-samningsins

Ísland og Indland eru meðal helstu fiskveiðiþjóða heims og fríverslunarsamningur ríkjanna sem nú hefur tekið gildi skapar grundvöll fyrir aukin viðskipti og samstarf þeirra í greininni. Ísland er leiðandi fiskútflutningsríki á heimsvísu sem tekist hefur bæta nýtingu, arðsemi og nýsköpun í sjávarútvegi á meðan Indland er meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims. Heildarafli indverska sjávargeirans er yfir fjórar milljónir tonna á ári og hafa tugmilljónir íbúa landsins lífsviðurværi sitt af fiskveiðum.

Samningurinn opnar fjölmörg tækifæri til frekara samstarfs og viðskipta milli ríkjanna, m.a. á grundvelli gagnkvæmra niðurfellinga tolla á sjávarafurðir, frekari fjárfestinga í greininni, þjónustutengdri starfsemi og samstarfi á sviði sjálfbærrar fiskveiðistjórnunar og auðlindanýtingar.

Niðurfelling tolla
Á grundvelli TEPA samningsins mun Indland fella niður eða lækka tolla á allar helstu útflutningsafurðir Íslands í sjávarútvegi, ýmist strax við gildistöku eða í jöfnum skrefum yfir lengra tímabil. Almennir tollar á sjávarafurðir til Indlands eru háir í alþjóðlegum samanburði eða alla jafna í um 33%. Ekki þarf að fjölyrða um þau tækifæri sem felast í slíkum niðurfellingum fyrir íslenska útflytjendur sjávar- og eldisafurða.

Enginn almennur tollur er á langflestar sjávarafurðir til Íslands og breytir fríverslunarsamningurinn því litlu þar um. Hins vegar eru tilteknar unnar sjávarafurðir og m.a. rækja á 10% almennum tolli inn til Íslands. Þessi tollur hefur nú fallið úr gildi gagnvart afurðum upprunnum á Indlandi en rækja er einmitt það sjávarfang sem Indland flytur hvað mest út af.

Fjárfestingar
EFTA-ríkin og Ísland þar með talið setja sér markmið um stórauknar fjárfestingar og fjölgun starfa á Indlandi á grundvelli TEPA samningsins. Hvað Ísland áhrærir felast umtalsverð fjárfestingatækifæri í indverskum sjávarútvegi sem vaxið hefur hratt undanfarin ár. Nýleg fjárfesting Hampiðjunnar í einu stærsta netaframleiðslufyrirtæki Indlands er lifandi dæmi um það.

Indversk stjórnvöld hafa uppi metnaðarfull áform um nútímavæðingu fiskveiðiflotans, vinnslu og hafnarinnviða á komandi árum. Hér búa íslensk fyrirtæki yfir þekkingu og rekstrareynslu sem vel má heimfæra yfir á indverskan markað. Djúpsjávar- og úthafsveiðar, vinnsla, nýsköpun og sjávartækni eru vaxandi geirar í indverskum sjávarútvegi þar sem íslensk fyrirtæki eru leiðandi á heimsvísu.

Viðskiptaráðuneyti Indlands hefur komið á fót sérstöku þjónustuborði sem ætlað er að liðsinna fjárfestum frá EFTA-ríkjunum og liðka fyrir fjárfestingaverkefnum þeirra í indverskum iðnaði.

Þjónustutengd starfsemi
Á grundvelli samningsins skuldbinda Ísland og Indland sig til að veita þjónustufyrirtækjum frá hinu ríkinu sömu meðferð og eigin fyrirtækjum innan fjölda þjónustugeira, þ.á.m. í þjónustu tengdri sjávarútvegi. Fríverslunarsamningurinn felur því í sér tækifæri til aukinna viðskipta fyrir þjónustuveitendur í sjávarútvegi beggja ríkja. Hvað íslensk þjónustufyrirtæki áhrærir er um að ræða einstakt tækifæri til að taka þátt í yfirstandandi nútíma- og sjáfbærnivæðingu indverska fiskveiðigeirans. Hér mætti m.a. nefna lausnir á sviði orkunýtni fiskiskipaflota, fiskileitartækni, leiðarstýringu fiskiskipa með aðstoð hugbúnaðar sem tekur mið af verðurfari og ölduhæð og sjálfvirkrar skýrslugerðar til eftirlitsaðila fiskveiðistjórnunar.

Innan vinnslugeirans hefur á Íslandi byggst upp þekking og tækni á heimsmælikvarða sem miðar að rekjanleika vöru og framleiðslu vélbúnaðar til flökunar og frekari vinnslu sjávarafurða. Vélbúnað þarf að þjónusta með reglubundnu millibili. Þjónustukafli fríverslunarsamningsins styrkir m.a. fyrirsjáanleika í reglusetningu sem heimilar komu þjónustuveitenda hins aðilans og dvöl þjónustuveitenda til skamms tíma við þjónustutengd verkefni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í þessu samhengi er einnig vert að minnast á kafla samningsins um vernd hugverka þar sem allir samningsaðilar skuldbinda sig til innleiðingar og framfylgdar alþjóðlega viðurkenndra reglna um vernd hugverka. Slíkar skuldbindingar ættu að styðja enn frekar við veitingu þjónustu sem og fjárfestingar milli samningsaðila.

Sjálfbærar fiskveiðar og auðlindanýting
Að lokum felur samningurinn í sér tækifæri til samstarfs á sviði sjálfbærra fiskveiða. Í sérstökum kafla um viðskipti og sjálfbæra þróun samþykkja samningsaðilar gagnkvæmar skuldbindingar um að auka sjálfbærni í viðskiptum og deila með sér þekkingu á sjálfbærri framleiðslu, m.a. sjávarafurða. Hér hefur Ísland töluvert fram að færa, ekki síst á sviði sjálfbærra fiskveiða og fiskveiðistjórnunar. Samningurinn veitir tækifæri til samráðs, m.a. í sameiginlegri nefnd á grundvelli samningsins, um stefnumótun við verndun fiskistofna til lengri tíma, samhliða hagkvæmri nýtingu þeirra og virku eftirliti með veiðum. Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið er bæði skilvirkt og sameinar gagnsæi, ábyrgð og nýsköpun í greininni sem gæti gagnast indverskum stjórnvöldum, m.a. við að tryggja jafnvægi milli umhverfisverndar og efnahagslegrar velferðar í sjávarútvegi.

Þessi grein var tekin saman af viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Hún veitir frekari upplýsingar til fyrirtækja um efni samningsins og fríverslunarsamninga almennt.

Scroll to Top