Bala Kamallakharan, formaður Íslensk-indverska viðskiptaráðsins, tók þátt í umræðum á vegum sendiráðs Indlands í Reykjavík sl. föstudag, í tilefni af því að viðskipta- og efnahagssamstarfssamningur EFTA og Indlands gengur í gildi næstkomandi miðvikudag. Bala gerði að umtalsefni hvernig Indland leitaðist við að mynda jafnvægi í deilum ríkja og heimshluta. Indland væri nógu stórt til að skipta máli, nógu hlutlaust til að geta unnið með öllum og nógu stafvætt til að geta stækkað hratt.
Bala ræddi fjóra efnahagslega drifkrafta sem stuðla að hröðum hagvexti á Indlandi.
Í fyrsta lagi innlend eftirspurn – á næstu fimm árum er því spáð að indverska millistéttin stækki úr 500 milljón manns í 800 milljónir. Indland er nú þegar fjórði stærsti bílamarkaður í heimi, næststærsti farsímamarkaðurinn og verður þriðji stærsti flugmarkaðurinn eftir fimm ár. Indverjar eru ung þjóð og unga kynslóðin metnaðargjörn og tæknidrifin. Árlega flytja 25-30 milljónir manna til borganna, sem drífur eftirspurn eftir húsnæði, samgöngukerfum, orku og innviðum. Indland væri ekki útflutningsdrifið með sama hætti og ýmis önnur hagkerfi og fjárfestar gætu treyst á innri vöxt jafnvel þótt viðsjár væru í alþjóðahagkerfinu.
Í öðru lagi stafvæðing landsins. Indland hefur byggt upp stafræna innviði í heimsklassa fyrir almenning. Greiðslukerfi, persónuskilríki og viðskipti eru stafræn, sem lækkar kostnað, eykur skilvirkni og skapar ný viðskiptamódel.
Í þriðja lagi iðnaðarframleiðsla og aðfangakeðjur. Framleiðslufyrirtæki horfa ekki lengur aðallega til Kína. Indland hefur staðsett sig sem framleiðslumiðstöð. Hvatar á sviði rafeindaiðnaðar, hálfleiðara og endurnýjanlegrar orku laða að alþjóðlegt fjármagn.
Í fjórða lagi fjárfestingar í innviðum. Indland er í miðri stærstu innviðafjárfestingu frá því að landið fékk sjálfstæði, með vegagerð, byggingu hafna, flugvalla, jarðlestarkerfa og orkukerfa. Hér er ekki eingöngu verið að greiða innviðaskuld, heldur leggja grunninn að áratuga framleiðniaukningu.
Bala sagði að þróunin á Indlandi skipti Ísland máli með margvíslegum hætti. Þróunin opnaði dyr fyrir Ísland í ferðaþjónustu, orkumálum, fiskveiðum og tæknisamstarfi. Bala ræddi hversu miklu máli skipti að indverskir ferðamenn gætu komið til Íslands og borgað með þeim stafrænu greiðslumiðlum sem þeir væru vanir. Tækifærin fyrir sprotafyrirtæki væru gífurleg; á Indlandi væri hægt að skala upp tækni sem íslensk fyrirtæki hefðu þróað og ná til milljónamarkaða.
Indland gæti verið samstarfsríki Íslands við að efla aðfangakeðjur, hvort sem það væri í tækni fyrir endurnýjanlega orku, bílarafhlöðum eða hátæknibúnaði fyrir sjávarútveg. Sérfræðiþekking Íslands í hreinorku væri nokkuð sem Indland þyrfti nauðsynlega á að halda.
Á viðburðinum lögðu fleiri orð í belg, R. Ravindra sendiherra Indlands fór yfir tölur um viðskipti ríkjanna og tækifærin til að auka þau. Forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa náð árangri á Indlandsmarkaði sögðu stuttlega frá reynslu sinni.
Hér að neðan eru myndir frá viðburðinum.





