Samskipti Indlands og Íslands: Ný tækifæri í viðskiptum og fjárfestingum

Grein R. Ravindra sendiherra Indlands í Morgunblaðinu 17. október 2025

Hið langþráða viðskipta- og efnahagssamkomulag Indlands og EFTA (TEPA) hefur nú tekið gildi. Þann 1. október 2025 hélt Indland fyrstu ráðstefnuna um efnahagslegar framfarir milli Indlands og EFTA til að marka hið nýja upphaf. TEPA er sanngjarnt og gagnkvæmt samstarfsform sem opnar nýjar leiðir milli hagvaxtar Indlands og evrópskra markaða, þar á meðal Íslands. Samkomulagið leggur áherslu á árangur með skýrum markmiðum, skilgreindum hlutverkum og framkvæmdaáætlun sem miðar að því að auka markaðsaðgang og fjárfestingar til að skapa fjölbreytt og góð störf. Hápunktur samkomulagsins er loforð um 100 milljarða Bandaríkjadala í beina erlenda fjárfestingu til Indlands og áætluð sköpun einnar milljónar beinna starfa á 15 árum. TEPA-samkomulagið veitir ívilnanir á um 82,7% af tollflokkum Indlands, sem nær yfir 95,3% af útflutningi EFTA-ríkjanna og á 92,2% af tollflokkum EFTA, sem nær yfir 99,6% af útflutningi Indlands.

Indland hefur afnumið tolla á mörgum útflutningsvörum frá Íslandi frá og með 1. október. Þar á meðal eru tilteknir flokkar af fisk- og lambafurðum, rækjum, humri, járn- og málmgrýti, koltjöru og mismunandi afbrigði áls. Á sama hátt hefur Ísland afnumið tolla á mörgum landbúnaðarvörum frá Indlandi, svo sem kaffi, tei, kryddum, hveiti og tilteknum flokkum grænmetis.

TEPA býður íslenskum fyrirtækjum gríðarleg tækifæri í viðskiptum og fjárfestingum. Indland, sem er eitt af þeim hagkerfum heims sem vex hvað hraðast og stefnir að því að verða þriðja stærsta hagkerfi heims, mun leggja traustan grunn að viðskiptum og fjárfestingum við Ísland. Indland er nú fjórða stærsta hagkerfi heims með árlega verga landsframleiðslu sem nemur meira en 4 billjónum Bandaríkjadala. Það er einnig eitt af þeim hagkerfum sem vaxa hvað hraðast meðal stórra hagkerfa, með meðal árlegan vöxt upp á 7-8 prósent. Indland á einnig stóran og vel menntaðan hóp ungs fólks sem er drifkraftur eftirspurnar og leiðir áfram nýsköpun í tækni.

Helstu geirar sem gætu laðað að sér fjárfestingar frá Íslandi eru endurnýjanleg orka, matvælavinnsla, sjávarútvegur, sjóflutningar og sjávartengd starfsemi, bíla- og vélaiðnaður, þjónusta og hugbúnaðarþróun. Fyrirtæki frá Íslandi eru þegar farin að láta til sín taka í þessum geirum á Indlandi og fyrstu skrefin gefa tilefni til bjartsýni.

Leyfið mér að nefna nokkur dæmi til skýringar. Verkis og Geotropy starfa á sviði endurnýjanlegrar orku; JBT Marel í matvælavinnslu; Hampiðjan í sjávartengdri starfsemi; Össur í stoðtækjum; Evolytes í kennsluhugbúnaði; Retina Risk í augnheilsu; og að sjálfsögðu Alvotech – sem er skýrt dæmi um hvernig indversk sérþekking og íslensk nýsköpun geta sameinast með gagnkvæmum ávinningi. Við vonum að þessi dæmi verði mun fleiri á næstu árum.

Fyrirtæki njóta þess sérstaka ávinnings að samningurinn opnar leið að mörkuðum víðar en í Indlandi og á Íslandi. Fyrir indversk fyrirtæki býður Ísland upp á aðgang að EES-markaðnum og íslensk fyrirtæki sem framleiða vörur sínar á Indlandi geta flutt þær til ríkja sem hafa fríverslunarsamning við Indland. Á síðustu árum hefur Indland gert fríverslunarsamninga við ríki eins og Sameinuðu arabísku furstadæmin, Ástralíu og Bretland.

Viðskiptasamningurinn milli Indlands og EFTA-ríkjanna, TEPA, kemur á hentugum tíma fyrir bæði Indland og Ísland. Viðskiptin milli ríkjanna hafa hingað til verið hófleg og verulega undir því sem mögulegt væri. Þetta á einnig við um fjárfestingar. Gert er ráð fyrir því að þetta breytist, þökk sé TEPA. Indland er á öruggri leið með það að verða þriðja stærsta hagkerfi heims og hraður vöxtur þess veitir traustan jarðveg fyrir framtíðina.

Scroll to Top