Íslensk-indverska viðskiptaráðið og Félag atvinnurekenda stóðu, ásamt Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytinu, að ráðstefnunni Nordic India Dialogue á Parliament Hotel í Reykjavík sl. föstudag. Fyrsta ráðstefnan af þessu tagi var haldin í Ósló í fyrra, en ætlunin er að hún verði árlegur viðburður og verði haldin á Indlandi á næsta ári.
Á Nordic India Dialogue koma saman fulltrúar viðskiptalífs, stjórnmála og stjórnsýslu og fræðasamfélagsins í sex löndum, norrænu ríkjunum og Indlandi, og ræða samstarf ríkjanna. Fríverzlunar- og efnahagssamstarfssamningur EFTA og Indlands (TEPA) var ofarlega á baugi að þessu sinni, en einnig var rætt um viðskipta- og efnahagssamstarf á breiðum grundvelli; tækniþróun, nýsköpun og fjárfestingar og bláa hagkerfið. Fjallað var um samstarf á sviði öryggis- og heimskautamála, umhverfismála og sjálfbærni.
Tveir fyrrverandi forsetar Íslands, þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Guðni Th. Jóhannesson, ávörpuðu ráðstefnuna. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Shri Kirti Vardhan Singh, aðstoðarumhverfisráðherra Indlands, fluttu opnunarerindi ásamt R. Ravindra, sendiherra Indlands á Íslandi. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA og ÍIV stýrði málstofu með Ramakrishnan Mukundan, forstjóra Tata Chemicals og verðandi forseta CII, Confederation of Indian Industries, en þau samtök hafa 70 skrifstofur á Indlandi og um 360.000 fyrirtæki eiga að þeim beina og óbeina aðild. Ráðstefnuna sóttu um 65 manns.
Alþjóðamálastofnun hafði veg og vanda af framkvæmd ráðstefnunnar. Styrktar- og samstarfsaðilar voru utanríkisráðuneytið, Alvotech, Félag atvinnurekenda, JBT Marel, Verkís, Brim, Retina Risk, Bara tala og Lýsi.
Hér að neðan eru nokkrar myndir frá ráðstefnunni.

















