Fríverslunarsamningurinn við Indland er mikilvægasti fríverslunarsamningur sem EFTA ríkin hafa gert um langt skeið. Samningaviðræður hófust árið 2008 og lauk árið 2024. Allir aðilar að samningnum hafa nú lokið þinglegri meðferð og nauðsynlegu fullgildingarferli hans. Samningurinn mun því formlega taka gildi þann 1. október nk., en hann var undirritaður 10. mars í fyrra.
Indland er fjölmennasta ríki heims og fimmta stærsta hagkerfið. Þetta er jafnframt fyrsti fríverslunarsamningur sem Indland gerir við Evrópuríki og hefur hann gríðarlega þýðingu fyrir viðskipta- og efnahagssamband Íslands við Asíu.
Líkt og aðrir fríverslunarsamningar EFTA felur hann í sér skuldbindingar um tollkjör, þjónustuviðskipti, vernd hugverka, fjárfestingar, sjálfbæra þróun og úrlausn deilumála.
Samið um lækkun eða afnám hárra tolla
Tollar eru almennt mjög háir á Indlandi. Sem dæmi má nefna 33% innflutningstolla á sjávarafurðir, 55% á lýsisperlur og 5,5% á kísiljárn. Með samningnum munu tollar á sjávarafurðir og iðnaðarvörur frá Íslandi annaðhvort falla niður strax eða lækka skref fyrir skref á aðlögunartíma. Þetta á einnig við um tilteknar landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi.
Útflutningur frá Íslandi til Indlands hefur hingað til verið hóflegur, einkum kísiljárn og lýsi, en merki eru um vaxandi viðskipti. Innflutningur frá Indlandi hefur verið meiri. Með samningnum skapast nýjar forsendur til að auka viðskipti í báðar áttir og veitir hann íslenskum útflytjendum ótvírætt samkeppnisforskot á hinum ört vaxandi Indlandsmarkaði.
Stuðningur við íslenska þjónustuveitendur
Samningurinn tryggir jafnframt íslenskum þjónustuveitendum aukinn aðgang og fyrirsjáanleika á Indlandsmarkaði. Sérstaklega má nefna tækifæri í orkutengdri þjónustu þar sem indversk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið um aukna nýtingu endurnýjanlegrar orku, þar á meðal jarðvarma og vatnsafls. Til að styðja við framkvæmdina hefur indverska viðskiptaráðuneytið þegar komið á fót sérstöku þjónustuborði fyrir fjárfesta og fyrirtæki frá EFTA-ríkjunum.
Að lokum kveður samningurinn á um stofnun sameiginlegra nefnda sem verða vettvangur íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja til að taka viðskiptatengd mál beint upp við indversk stjórnvöld.
Samningurinn er því ekki aðeins mikilvægur áfangi í viðskiptasögu Íslands heldur einnig nýr kafli í samskiptum Íslands og Indlands. Fyrirtæki sem hyggja á sókn á indverskan markað ættu nú að fylgjast grannt með þeim fjölmörgu tækifærum sem skapast.