TEPA greiðir götu tæknifyrirtækja – Vinnustofa 29. október

Íslensk-indverska viðskiptaráðið, Íslandsstofa og fleiri bjóða til vinnustofu

Íslensk-indverska viðskiptaráðið og Íslandsstofa, í samstarfi við indverska tæknihraðalinn Bharatia og sendiráð Indlands á Íslandi, efna til vinnustofu 29. október kl. 13-16, undir yfirskriftinni „Unlocking the Green Growth Corridor.“ Umfjöllunarefnið er hvernig viðskipta- og efnahagssamstarfssamningur Indlands og EFTA-ríkjanna (TEPA), sem tók gildi í byrjun mánaðarins, opnar ný tækifæri og greiðir götu íslenskra tæknifyrirtækja sem hafa áhuga á að hasla sér völl á Indlandi.

Á vinnustofunni, sem fer fram á ensku, verður lögð sérstök áhersla á tækifæri á sviði jarðhita, endurnýjanlegrar orku, umhverfisvænna skipaflutninga, gagnavera, sjálfbærra fiskveiða og fiskeldis, innviða og heilbrigðisþjónustu. Þá verður sérstök umræða um samstarf íslenskra og indverskra sprotafyrirtækja. Á vinnustofunni verður dreift nýrri skýrslu Bharatia um tækifærin sem TEPA opnar.

Bala Kamallakharan, formaður ÍIV, mun stýra pallborðsumræðum, en þátttakendur í þeim eru Sanmit Ahuja, forstjóri Bharatia, Subhash Kumar, fyrrverandi stjórnarformaður ONGC, stærsta olíu- og gasfyrirtækis Indlands, Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, og Ragnar Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Nánari upplýsingar um vinnustofuna og aðstandendur hennar eru í bæklingnum hér að neðan. Viðburðurinn fer fram í fundarsal Félags atvinnurekenda í Skeifunni 11 b. Þátttaka er ókeypis en skráning nauðsynleg.

Skráning á vinnustofuna

Scroll to Top